Ég kýs ekki

en mig langar að kjósa.

Ég skora á yfirkjörstjórnir og samfélagið allt að styðja við fatlað fólk í kosningum, tryggja óhindrað aðgengi á kjörstað og koma í veg fyrir fordóma.

Sjá fleiri sögur ↓


  Margt fatlað fólk mætir fordómum og hindrunum í kosningum. Sameinumst, skrifum undir og tryggjum að allir geti nýtt kosningarétt sinn.

  Ég kýs ekki

  Því borðið er of hátt fyrir mig

  Ég kýs ekki

  Því ég er hrædd um að fólk dæmi mig

  Ég kýs ekki

  Því systir mín bannaði mér það

  Ég kýs ekki

  Því ég er ekki með far

  Skrifa undir

  Hafa allir raun­veru­legan kosninga­rétt?

  Það er óumdeilanlegt að það eru mjög mikilsverð mannréttindi fólgin í því að fá kjósa og taka þannig þátt í að velja þá fulltrúa til að setja lög og stjórna ríki og sveitarfélögum.

  Þessi réttindi, sem varða ekki aðeins mannréttindi heldur eru algjör forsenda þess að ríki geti með réttu kallað sig lýðræðisríki, hafa verið staðfest í ýmsum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland er skuldbundið til framfylgja, er mjög mikil áhersla lögð á skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki raunverulegan kosningarétt. Sú mikla áhersla er skýr yfirlýsing þjóða heims um að uppræta verði þá mismunun sem fatlað þarf að þola og tryggja því raunveruleg tækifæri til þátttöku í stjórnmálum hindranalaust og til jafns við aðra.

  Grundvallarþáttur í réttinum til að kjósa er að enginn þarf að sýna fram á að hann hafi einhverja tiltekna þekkingu á hinu eða þessu. Rétturinn á nefnilega að vera og þarf að vera skilyrðislaus því að öll skilyrði eru til þess fallin að útiloka einhverja einstaklinga eða tiltekna hópa fólks og skilyrði af þessu tagi eru mjög oft tæki vondra valdhafa til að mismuna og kúga þá sem eru þeim ekki þóknanlegir.

  Flestir þekkja þá ljótu sögu hvernig hópum fólks hefur verið neitað um réttinn til að kjósa. Konur höfðu t.a.m. mjög lengi ekki þennan rétt og í mörgum löndum njóta þær hans ekki enn, þeir einir höfðu kosningarétt sem gátu sýnt fram á þeir væru svo og svo efnaðir og þá hefur fólki af tilteknum kynþætti, litarhætti eða trú verið neitað um þennan rétt beint eða óbeint og er svo enn. Raunar er víða verið að skerða þessi réttindi með beinum og óbeinum hætti enn þann dag í dag og m.a.s. í Bandaríkjunum sem oft hafa gert tilkall til að vera í forystu fyrir vestræn lýðræðisríki.

  Kosningaréttur fatlaðs fólks

  Fatlað fólk hefur hvarvetna í heiminum mátt þola að vera svipt kosningarétti vegna djúpstæðra fordóma og mismununar í lögum og/eða framkvæmd laga og þannig er það enn mjög víða. Ísland er engin undantekning frá því þó að mjög margt hafi skánað og annað muni skána þegar ný kosningalög taka gildi í byrjun næsta árs.

  En þetta er ekki bara spurning um að lög og reglur kveði á um rétt allra til að kjósa án mismununar. Þetta er líka spurning um ýmsar hindranir í umhverfi og viðhorfum fólks sem mæta fötluðu fólki þegar það ætlar að nýta kosningaréttinn.

  Er tryggt að þeir sem þess þurfa fá aðstoð til að komast á kjörstað? Er tryggt að aðgengi á kjörstað sé hindrunarlaust og öruggt? Er nokkur hætta á að fólk telji eðlilegt að fatlað fólk nýti ekki kosningarétt sinn og dragi jafnvel úr því að gera það? Og svona mætti áfram lengi telja.

  Fatlað fólk er því miður enn þá mjög jaðarsettur hópur í íslensku samfélagi. Flest fatlað fólk hefur litlar tekjur og örorkubætur eru skammarlega lágar í okkar ríka landi. Fatlað fólk hefur minni tækifæri til menntunar en fólk almennt. Fatlað fólk hefur því almennt lítil völd og áhrif í samfélaginu á grundvelli mikilla peninga, eigna eða félagslegrar stöðu, eins og ýmsir aðrir hópar hafa. Það má því með veigamiklum rökum halda því fram að rétturinn til að kjósa, hindranalaust, sé fáum hópum fólks mikilvægari en einmitt fötluðu fólki.

  Ef við viljum búa í samfélagi þar sem allir hafa réttinn til að kjósa og ekki bara í orði heldur í einnig í verki, er það á ábyrgð okkar allra að gera það sem í okkar valdi stendur, hvers og eins, til að ryðja úr vegi öllum þeim beinu og óbeinu hindrunum sem standa því í vegi að allt fatlað fólk njóti í raun kosningaréttar til jafns við aðra.

  Höfundur er framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, Árni Múli Jónasson.

  Á­skorun Lands­sam­takanna Þroska­hjálpar til kjör­stjórna

  • Víða í heiminum fær fatlað fólk ekki að kjósa.
  • Það gerist líka stundum á Íslandi.
  • Samt eru lög og reglur á Íslandi þannig að þau reyna að passa upp á rétt fatlaðs fólks til að kjósa.
  • Það eru allskonar hindranir í umhverfinu eða frá öðru fólki sem koma í veg fyrir að fatlað fólk geti kosið.
  • Við viljum að allir sem vilja geti kosið.
  • Kjörstjórn sem stýrir kosningunum á að passa uppá að fatlað fólk geti kosið.
   • Að það sé gott aðgengi inn á kjörstaðinn og inni í kjörklefanum.
   • Að leiðbeiningar séu góðar og auðvelt að skilja þær.
   • Að aðstoða þá sem þurfa aðstoð við að kjósa.
   • Vera jákvætt og sýna að það vilji leiðbeina og aðstoða.
   • Landssamtökin Þroskahjálp biðja allar kjörstjórnir í landinu að passa sértaklega vel upp á að fatlað fólk geti nýtt rétt sinn til að kjósa í alþingiskosningunum á laugardaginn 25. september.

  Fatlað fólk hefur hvarvetna í heiminum mátt þola að vera svipt kosningarétti vegna djúpstæðra fordóma og mismununar í lögum eða framkvæmd laga og þannig er það enn mjög víða. Ísland er engin undantekning frá því þó að margt hafi skánað og fleira muni skána þegar ný kosningalög taka gildi í byrjun næsta árs.

  En þetta er ekki bara spurning um að lög og reglur kveði á um rétt allra til að kjósa án mismununar. Þetta er líka spurning um ýmsar hindranir í umhverfi og viðhorfum fólks sem mæta fötluðu fólki þegar það ætlar að nýta kosningaréttinn.

  Ef við viljum búa í samfélagi þar sem allir hafa réttinn til að kjósa og ekki bara í orði heldur í einnig í verki, er það á ábyrgð okkar allra að gera það sem í okkar valdi stendur, hvers og eins, til að ryðja úr vegi öllum þeim beinu og óbeinu hindrunum sem standa því í vegi að allt fatlað fólk njóti í raun kosningaréttar til jafns við aðra.

  Kjörstjórnir hafa mjög mikilvægt hlutverk og mikla ábyrgð við að tryggja að fatlað fólk fái í raun sömu tækifæri og aðrir til að nýta kosningarétt sinn.

  Er tryggt að aðgengi á kjörstað sé hindrunarlaust og öruggt?

  Er tryggt að fatlað fólk fái á kjörstað fullnægjandi leiðbeiningar og aðstoð sem það þarf á að halda til að geta kosið hindranalaust?

  Er tryggt að viðmót starfsfólks á kjörstað gagnvart fötluðu fólki sé jákvætt og einkennist af vilja til að leiðbeina og aðstoða?

  Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarnar vikur staðið fyrir undirskriftaöfnun og nú hafa 6000 manns skrifað undir hana með áskorun um að yfirkjörstjórnir og samfélagið allt styðji við fatlað fólk í kosningum, tryggji óhindrað aðgengi á kjörstað og komi í veg fyrir fordóma. Undirskriftirnar verða afhentar dómsmálaráðuneytinu í lok vikunnar. Landssamtökin Þroskahálp þakka öllum sem skrifuðu undir áskorunina kærlega fyrir stuðninginn og öllum sem tóku þátt í þessu vitundarvakningar-verkefni með okkur

  Landssamtökin Þroskahjálp skora hér með á allar kjörstjórnir í landinu að gera allt það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að fatlað fólk geti nýtt rétt sinn til að kjósa til Alþingis 25. september nk., án þess að þurfa að mæta nokkrum hindrunum sem leiða til eða eru til þess fallnar að mismuna því um þessi gríðarlega mikilsverðu lýðræðis- og mannréttindi.

  Höfundur er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Bryndís Snæbjörnsdóttir.

  Mis­munun í kjör­klefanum

  „Mig langar að kjósa en ég get það ekki því ég má ekki velja mér aðstoðarmann til að aðstoða mig í kjörklefanum. Ég hef aldrei getað kosið en samt hef ég mikinn áhuga á stjórnmálum og vil kjósa”.

  Eitthvað á þessa leiða hófst samtal sem ég átti við ungan mann með einhverfu fyrir ekki löngu. Viðkomandi getur vegna fötlunar sinnar ekki þegið aðstoð frá hverjum sem er en skv. núgildandi lögum er ætlast til þess að hver og einn kjósi aðstoðarlaust og í einrúmi. Þó er sú undantekning gerð að ef þú sakir sjónleysis eða þess að hönd sé ónothæf þá máttu velja þér þinn eigin aðstoðarmann til að hafa með þér inn í kjörklefann. Þetta þýðir að fólk með þroskahömlun, einhverfu eða skyldar fatlanir, getur ekki fengið aðstoð í kjörklefanum.

  Ný kosningalög voru samþykkt á Alþing í vor þar sem skýrt er kveðið á um að kjósandi sem þarf aðstoð inn í kjörklefa geti ráðið því sjálfur hvort hann þyggur aðstoð frá starfsmanni kjörstjórnar eða kemur með sinn eigin aðstoðarmann og tekur á þeirri mismunun sem er á milli hópa fatlaðs fólks, þar sem sumt fatlað fólk má fá aðstoð en annað fatlað fólk ekki. Þetta er mikið framfaraskref og réttlætismál sem loks er komið inn í íslensk lög og þar með búið að útrýma þeirri innbyrgðis mismunun sem fólst í eldri lögum. Þar sem ný kosningalög taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2021 er það því miður svo að í Alþingiskosningunum 25. september n.k. mun einungis hluti þeirra sem þurfa aðstoð í kjörklefanum fá hana, og geta því ekki nýtt lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa þrátt fyrir skýran vilja til þess.

  Það er mikilvægt að tryggja að fatlað fólk fái besta stuðning sem völ er á til þess að undibúa sig fyrir að kjósa 25. september. Þarna spila aðstandendur sem og starfsfólk sem vinnur fyrir og með fötluðu fólki lykilhlutverk. Þroskahjálp hvetur þessa aðila til þess að aðstoða fatlað fólk sem vill nýta kosningarétt sinn með öllum tiltækum ráðum.

  Höfundur er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Bryndís Snæbjörnsdóttir.

  Með herferðinni Ég kýs ekki erum við að sjálfsögðu ekki að letja fólk til að kjósa. Öðru nær, við viljum undirstrika hversu mikilvægt það er að öll getum við í reynd nýtt þann rétt sem staðfestur er í stjórnarskrá. Einungis þannig tryggjum við raunverulegt jafnrétti. Við hvetjum sem flest til að kynna sér stefnumál flokka sem bjóða fram til Alþingis, taka kosningapróf, heimsækja kosningaskrifstofur, tala við frambjóðendur í sínu kjördæmi o.s.frv. Og að lokum: Mætum á kjörstað! Flokkarnir sem bjóða sig fram til Alþingiskosninga 2021 eru: Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur Fólksins, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn, Frjálsi Lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Vinstri Græn og Ábyrg Framtíð.